Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því að Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur hafi vísað tillögu um notkun kirkjuklukkna til umsagnar hjá Heilbrigðiseftirlitinu. Ástæðan er tillaga á vefnum Betri Reykjavík þar sem lagt er til að kirkjuklukkur verði aðeins notaðar „við stærri athafnir s.s. brúðkaup og jarðarfarir en ekki við messuhald“.
Mér finnst hljómur kirkjuklukkna afar fagur og hátíðlegur. Mér finnst það tilheyra stórborg að heyra klukkur hringja til messu eða annarra athafna. Þegar ég var í Tyrklandi fannst mér það setja skemmtilegan svip á borgina að heyra í bænaköllin úr moskunum jafnvel þótt ég sé ekki múslimi. Það ætti alls ekki að setja neinar hindranir á notkun kirkjuklukkna. Þær eru hluti af umhverfinu. Ég vona innilega að takmörkun á notkun kirkjuklukkna verði ekki enn eitt skrefið í vegferð Reykjavíkurborgar gegn kirkjunni.