Fréttatíminn birtir í dag skemmtilegt viðtal við Hreiðar Inga Þorsteinsson, kirkjuvörð í Hallgrímskirkju. Þar segir hann lítillega frá kirkjuklukkunum.

Vefslóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=6808188

Uppfært 17. október 2018

Þar sem viðtalið er ekki lengur aðgengilegt á frettatiminn.is birti ég það fyrir neðan:

Hringjarinn í Hallgrímskirkju

Starfið er mjög fjölbreytt. Ég sinni öllu kirkjuhaldi, geri allt klárt fyrir messuna á sunnudögum og sé um klukkurnar. Turninn er svo 90% af starfinu,“ segir Hreiðar Ingi Þorsteinsson, kirkjuvörður í Hallgrímskirkju. Hreiðar hefur starfað í kirkjunni í tíu ár og segir starfið hafa breyst mikið á þeim tíma. Nú felist vinnan aðallega í því að þjónusta ferðamenn en á góðum degi koma um 2000 ferðamenn í kirkjuna. „Lyftan er algjör bjargvættur fyrir okkur því kirkjan er svo skuldsett eftir allar lagfæringarnar sem voru gerðar hér í kringum hrunið.“

„Hér eru þrjár stórar klukkur. Hallgrímur stóri sem er nefndur eftir Hallgrími sjálfum, Guðríður sem er nefnd eftir konu hans og svo minnsta klukkan, hún Steinunn, sem er nefnd eftir dóttur þeirra sem dó mjög ung. Steinunn er sú eina sem klingir í dag því hinar eru orðnar svo ryðgaðar. Steinunn hringir bara fyrir messur og þá þarf ég að nota til þess sérstaka takka. Svo er hér klukkuspil sem hringir á kortersfresti sem spilar Big Ben stefið sem allir þekkja.“

Klukkuspilið er sjálfvirkt svo Hreiðar þarf ekki að hafa af því miklar áhyggjur, nema þegar það eru sérstakar athafnir, brúðkaup, jarðarfarir, páskamessa, jólamessa eða tónleikar. „Við gefum til að mynda bara einn tón þegar það eru jarðarfarir en brúðarsálminn þegar brúðhjón ganga hér út. Ábyrgðin er töluverð þegar kemur að þessu því það má auðvitað ekki klikka með því að spila brúðarmarsinn í jarðarför, en það hefur sem betur fer aldrei gerst. Þetta eru allt mjög viðkvæmar og mikilvægar stundir sem ég tek þátt í hérna. Ein af fallegustu stundunum sem ég upplifi hérna að opna dyrnar fyrir brúðina áður en hún gengur inn í kirkjuna og sjá alla veröldina speglast í augum hennar. Það má segja að ég sé maðurinn á bak við tjöldin.“