Opinberar reglur um klukknahringingar á Íslandi eru engar til. Fylgt hefur verið ákveðinni meginreglu víðast hvar, en frávik eru mörg. Mestu ræður þar um að klukkur eru mismargar í hverri kirkju, staðsetning kirkna gagnvart byggðinni er er mismunandi og rafmagnsstýrt hringingakerfi er orðið algengara. Enn eru það þó víða hringjarar sem annast klukkusláttinn með líkamsburðum sínum og slagtækni. Góður hringjari er á öllum tímum sérstakt djásn sinnar kirkju. Fögur hringing eykur á tign og prýði helgra stunda. Vandi er að samhringja tveim misstórum klukkum. Þetta hafa þó góðir hringjarar gert í aldanna rás og eru margir þeirra hreinir listamenn. Læra þarf sérstaklega á hvert klukkupar, og er æfingatíma vel varið. Vegna þeirrar virðingar sem kirkjuklukkan og hljómur hennar nýtur og vegna þeirra skilaboða sem klukka ber kristnum lýð hefur oft reynst erfitt að sinna æfingum sem skyldi. Þessvegna þarf að skapa til þess sérstök skilyrði, svo að listgreinin deyi ekki út. Engum þykir gott að vera kallaður óvænt til að hringja klukkum sem hann ekki þekkir.
Margt er það sem ræður um hringingatækni hringjarans. Margur hringjarinn hefur einnig sinn persónulega stíl og áratuga þjálfun að baki. Hinir innri hæfileikar hringjarans til fagurrar hringingar geta verið mjög mismunandi en hvað varðar hin ytri skilyrði þess ræður hæfilegur stærðarmunur klukkna og fjarlægð hringjara frá klukkum mestu þar um. Stærðarmunur klukknanna getur t.d. verið svo mikill að aldrei verði hægt að samhringja svo vel fari.
Æskilegt er að hver hringing greini sig frá hinni næstu þannig að eftir hverja hringingu (hver þrjú slög) sé dokað örlítið við og slátturinn tekinn af kólfinum. Á sumum stöðum getur þó verið þörf á því að gera þetta ekki þegar klukkur eru mjög þungar og erfitt að koma þeim af stað.
Hringt til messu
Þegar hringt er til messu er almenna reglan þessi: Fyrst er hringt hálfri stundu fyrir messu einni klukku. Þegar hringt er handvirkt er hringt minnstu klukkunni (eða minni klukkunni ef þær eru tvær) tólf sinnum, eða tólf sinnum þrjú slög í senn. Minni klukkan hefur skærari tón og er því skírnarklukka.
Stundarfjórðungi fyrir messu er hringt stærri klukkunni, ef þær eru tvær, en miðklukkunni ef þær eru þrjár, sex sinnum þrjú slög. Á heila tímanum er samhringt tveim klukkum (handvirkt) níu sinnum þrjú slög. Séu klukkur tvær er þeim báðum hringt samtímis, ef klukkur eru þrjár er að öllu jöfnu hringt tveim hinum stærri. Víða erlendis tíðkast að hringja tveim minni klukkunum alla sunnudaga en tveim hinum stærri á stórhátíðum. Hér verður þó að meta eftir aðstæðum, m.a. eftir samhljómi klukknanna.
Þegar hringing er rafstýrð er hringt einni klukku hálfri stund fyrir messu í þrjár mínútur. Stundarjórðungi fyrir er hringt einni klukku eða tveim, eftir heildarfjölda klukknanna, eina mínútu. Samhringt er öllum klukkum í þrjár til fimm mínútur, öllum klukkum, eða ef vill er stærsta klukkan spöruð til sérstakra hátíða.
Samkvæmt fyrri venju var einnig samhringt í messulok. Leyfilegt er að hringja í lok messu einni klukku bænaslögin: Þrisvar sinnum þrjú slög.
Æskilegt er að hinni fyrri venju sé viðhaldið þar sem þess er kostur. Þá er samhringt níu sinnum, – eða níu sinnum þrjú slög með tveim klukkum. Í rafstýrðri hringingu er hringt (eftir heildarfjölda klukknanna) tveim eða þrem klukkum skamma stund; hálfa mínútu eða mest eina. Á sérstökum hátíðum er öllum klukkum samhringt hálfa mínútu.
Þar sem venja er að hringja inn hátíðir daginn fyrir (aðfangadaginn) þá er það gert klukkan 18.00. Hringt er einni klukku fimm mínútur (rafstýrt) og aldrei meir en tíu mínútur. Í handvirkri hringingu er hringt einni klukku
bænaslögin: þrisvar sinnum þrjú slög.
Sumstaðar er hringt til bæna kl. 9 að morgni og kl. 6 síðdegis, og sumar klukkur hringja á eyktamörkum, eða á heila tímanum, eins og klukkuspil Hallgrímskirkju í Reykjavík.
Um áramót er samhringt öllum klukkum, eigi skemur en fimm mínútur. Ef klukkur eru margar má hefja hringingu fyrir miðnætti og bæta smám saman við klukkum þannig að sú stærsta komi inn á heilatímanum. Annars er byrjað að hringja klukkan 12 öllum klukkum. Þegar messað er á áramótum er æskilegt að hringing þessi falli ekki niður.
Hringingar á virkum dögum og við athafnir
Við athafnir á virkum dögum er aldrei samhringt. Hringt er einni klukku til skírnar. (Skírnarklukku). Venjulega er hringt minnstu klukkunni, sem hefur bjartastan tón. Hringja má tveim klukkum til brúðkaups. Hringja má bæði inn og út, en nóg er að hringja inn.
Við útför er hringt þeirri klukku sem hefur dýpstan tóninn. Aldrei er hringt nema einni klukku við útför.
Líkhringing er eitt slag í senn og líður nokkur stund á milli slaga. Engin ákveðin regla er til um það hversu lengi skal hringt né heldur hversu langt skal líða á milli slaga. En til viðmiðunar er æskilegt er að ekki líði minna en fimm sekúndur og ekki meira en tíu sekúntur á milli. Ávallt er hringd líkhringing þegar kista er borin úr kirkju og stundum einnig við upphaf athafnar. Víða eru þó hringd í upphafi aðeins bænaslögin: þrisvar sinnum þrjú slög, eða að fyrst er hringd líkhringing stutta stund (um 2.mín) en endað á bænaslögunum. Handbók kirkjunnar 1981 gerir ráð fyrir því. Víða er sá siður, einkum á landsbyggðinni, að hringd sé líkhringing þegar komið er með kistu til kirkju fyrir útför. Æskilegt er að viðhalda þeim sið. Þá er hringt frá því að líkmennirnir leggja af stað og þar til kistunni hefur verið komið fyrir á kistustólunum í kirkjunni. Þessi venja byggir væntanlega á þeim sið að hringt var klukku í sáluhliði þegar komið var með lík til grafar.
Þegar borið er úr kirkju hefst líkhringing um leið og líkmenn lyfta kistunni og leggja af stað. Eldri venja var að hringt var meðan kistan var borin til grafarinnar og ekki hætt fyrr en kistan hafði verið látin síga í gröfina. Þegar kirkja er ekki í garði, en kistan flutt á annan stað er hringingu hætt þegar kistunni hefur verið komið fyrir á líkvagninum. Ef svo ber við að kista sem flutt er í annan stað til greftrunar er látin standa á kistustólum útifyrir kirkjunni eða í forkirkju svo að viðstaddir geti signt yfir kistuna um leið og þeir ganga út, er hringingu hætt á meðan, en hún hefst aftur þegar kistunni er lyft og hún borin að líkvagni.
Sé klukka í sáluhliði þar sem greftrun fer fram skal henni hringt líkhringingu þegar kista er borin í garð.Annars er hringt minnstu klukku kirkjunnar. Ef ekki er kirkja eða kapella í garðinum, ætti að vera ófrávíkjanleg regla að klukka sé í sáluhliði.
Höfundur texta: Kristján Valur Ingólfsson
Framleiðsla
Royoal Eijsbouts í Hollandi hefur framleitt margar kirkjuklukkur sem eru í notkun á Íslandi. Má þarf nefna klukkur Hallgrímskirkju, Háteigskirkju, Landskotskirkju og Guðríðarkirkju. Fyrirtækið framleiddi líka Íslandsklukkuna sem er staðsett við Háskólann á Akureyri.
Olsen Nauen Klokkestøperi í Noregi hefur framleitt nokkrar klukkur sem eru í notkun á Íslandi. Má þarf nefna Bústaðakirkju og Breiðholtskirkju.
Hér fyrir neðan má sjá tvö myndbönd sem fjalla um framleiðslu á kirkjuklukkum.