Í Langholtskirkju eru þrjár klukkur. Sérstakt klukknaport var byggt fyrir klukkurnar þegar þær voru settar upp en það hefur síðan verið endurnýjað.
Árið 1962 stofnuðu hjónin Elín Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason klukknasjóð með 35.000 kr framlagi sem þá var stærsta gjöf sem einstaklingar höfðu gefið.
Á sóknarnefndarfundi þann 13. maí 1965 var ákveðið að kaupa kirkjuklukkur frá þýsku fyrirtæki. Þetta voru alls 5 klukkur en ákveðið var að kaupa þær þrjár minnstu fyrst.
26. október 1965 var greint frá því að kirkjuklukkurnar væru komnar en það vantaði fé til að koma þeim upp fyrir jól.
Klukkurnar voru settar upp fyrir jólin 1965.
Á aðalfundi safnaðarins þann 15. nóvember 1981 sagði Vilhjálmur Bjarnason frá því að tvær klukknanna vantaði enn, tvær þær stærstu, 1050 kg. og 1950 kg. Hann sagði að byggja þyrfti sterkari uppistöður undir þær og yrðu þær að vera mjög háar, hærri en kirkjan svo hljómurinn berist út yfir sundin blá eins og Vilhjálmur orðaði það í ræðu sinni.
Vísir 20. desember 1965 (timarit.is)
Upptaka: RÚV