Í turni Reykholtskirkju nýrri eru alls sex klukkur:

  • Tvær klukknanna hafa tilheyrt Reykholtskirkju lengi og voru í eldri kirkjunni sem reist var 1886-1887. Önnur þeirra er líklega frá síðmiðöldum og er 36,5 cm í þvermál. Hin er frá árinu 1745 og á hana er letrað: KLOCKEN LYDER TIDEN GAAR GUD SAMLE OS I ENGLE KAAR. Yngri klukkan var umsteypt árið 1745 úr eldri klukku frá Reykholti.
  • Tvær komu frá Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.
  • Stærsta klukkan var gefin kirkjunni við vígslu turnsins árið 2005.
  • Minnsta klukkan er gamla skólabjalla Héraðsskólans í Reykholti. Sú er ekki notuð.

Turninn í Reykholtskirkju nýrri var vígður árið 2005. Velgjörðarmaður kirkjunnar, Jan Petter Røed, gaf þá kirkjunni stærstu klukkna auk þess að kosta allan búnað og uppsetningu hans. Það er merkilegt að í turni Reykholtskirkju blandast saman fjórar gamlar klukkur og ein ný. Það veldur því að hljómurinn er ekki 100% hreinn úr gömlu klukkunum. Við uppsetninguna var leitast við að láta gömlu klukkurnar sveiflast til þess að ná sem bestum hljómi úr þeim. Það reyndist hins vegar vandkvæðum bundið þar sem þær eru litlar og þar af leiðandi léttar. Því eru klukkurnar nú notaðar þannig að rafstýrður hamar slær í þær. Hringibúnaður Apollo II frá Clock-o-Matic.

Klukkum Reykholtskirkju er hringt 15 mínútur fyrir messu, við upphaf messu og við lok messu. Þá er líkhringing hringd á stærstu klukkuna þegar kista er borin til kirkju að útför lokinni.

Heimildir

Hringjari: Sr. Geir Waage, sóknarprestur
Upptaka: Guðmundur Karl Einarsson
3. nóvember 2017

Vitnað er í samtal við sr. Geir, upplýsingar á vef Snorrastofu og Kirkjur Íslands, 13. bindi (2009)

Upptaka frá 2013

Upptaka: Guðmundur Karl Einarsson, 17. júní 2013

Upplýsingar af vef Snorrastofu

Texti og myndir hér fyrir neðan eru fengin af vef Snorrastofu. 

Kirkjuklukkur í turni Reykholtskirkju hringdu inn messu í fyrsta skipti á 1. í aðventu 27. nóvember 2005 og var turninn þar með tekinn í notkun.

Mynd_0129419

Velgjörðarmaður kirkjunnar, Jan Petter Røed, sem kostaði framkvæmdir og búnað í turninum og gaf klukku að auki, var við messu, ásamt Alison, konu sinni. Jan Petter hefur áður aðstoðað söfnuðinn, með því að greiða niður skuldir hans vegna kirkjubyggingarinnar.

Jan Petter Røed og eiginkona hans Alison ræða við sóknarprestinn, sr. Geir Waage.

Jan Petter Røed og eiginkona hans Alison ræða við sóknarprestinn, sr. Geir Waage.

Klukkurnar í turni kirkjunnar eru nú fimm talsins. Tvær sem tilheyrt hafa Reykholtskirkju í langan tíma, sú eldri frá miðöldum, hin frá 1745. Tvær klukkur komu frá Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, önnur frá 1739 en hin að líkindum frá 15. öld. Þriðja klukkan og jafnframt sú stærsta er gjöf frá Røed.

Reykholtskirkja, klukkur

Hringingu klukknanna er stýrt með tölvubúnaði. Klukkurnar hringja á eyktum; kl. 9 að morgni, 12 á hádegi, 15 síðdegis og klukkan 18 og 21 að kveldi.

Þessar kirkjuklukkur eru meðal elztu hluta sem tilheyra kirkjunni. Sú stærri er talin vera frá 13. öld en hin klukkan hefur áletrað ártalið 1742, ásamt eftirfarandi versi: Klocken lyder tiden gaar Gud samle os i englekaar

Þessar kirkjuklukkur eru meðal elztu hluta sem tilheyra kirkjunni. Sú stærri er talin vera frá 13. öld en hin klukkan hefur áletrað ártalið 1742, ásamt eftirfarandi versi:
Klocken lyder
tiden gaar
Gud samle os
i englekaar

Úr Morgunblaðinu 28. nóvember 2005

Uppruni: http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1052273/

Kirkjuturninn í Reykholti tekinn í notkun með fimm klukkum frá ýmsum tímum

Kirkjuklukkur frá miðöldum notaðar á ný

Eftir Láru Gísladóttur

Reykholt | Við messu í Reykholtskirkju í Borgarfirði í gær var klukkum hringt í fyrsta sinn í turni kirkjunnar. Sr. Geir Waage er sóknarprestur í Reykholti. Til þessa hefur verið hringt frammi við kirkjudyr þar sem turninn var óinnréttaður. Í turninum eru nú búið að koma fyrir 5 klukkum, auk skólabjöllu Héraðsskólans í Reykholti.Tvær klukknanna eru þær sem notaðar hafa verið í Reykholtskirkju til þessa, önnur frá miðöldum en á hina er letrað ártalið 1745.Aðrar tvær klukkur koma úr Hallgrímskirkju í Saurbæ, en sr. Jón Einarsson fyrrum sóknarprestur þar ráðstafaði klukkunum til Reykholts á sínum tíma. Önnur er frá 1739 en hin líklega frá 15. eða 16. öld. Þær höfðu þá verið ónotaðar frá byggingu Hallgrímskirkju. Einnig var sett upp ný klukka sem smíðuð var sérstaklega fyrir Reykholtskirkju.

Velgjörðarmaður kirkjunnar, norski kaupsýslumaðurinn og skipaútgerðamaðurinn Jan Petter Røed, kostaði innréttingu í turninn og allan búnað til að hringja, ásamt nýju klukkunni. Røed var viðstaddur athöfnina ásamt Alison, eiginkonu sinni. Hann hefur áður styrkt kirkjubygginguna veglega með því að greiða niður skuldir hennar.

Að sögn sr. Geirs Waage, sóknarprests í Reykholti, hófust tengsl við Norðmanninn með þeim hætti að hann heimsótti Reykholt í fyrstu Íslandsheimsókn sinni fyrir nokkrum árum og hreifst mjög af þeirri uppbyggingu sem þar hafði átt sér stað. Áttu þeir Geir langt spjall saman, meðal annars um fjárhagsstöðu kirkjunnar. Uppúr þessari heimsókn varð mikill vinskapur. Geir segir Røed afar vel lesinn í fornbókmenntunum okkar og vel að sér um íslensk þjóðfélagsmál og dáist hann að árangi Íslendinga á mörgum sviðum. Hann sé hrifinn af því frelsi og þeim gangi sem hér sé í viðskiptalífinu. Geir sagðist eitt sinn hafa spurt hann að því hvers vegna hann væri svo örlátur, en svarið var: you earn – you learn – you return. Hann telur sem sé að þeim sem vegnar vel og gengur vel, beri skylda til að láta gott af sér leiða.

Geir var að vonum ánægður með daginn en sagði nú standa yfir söfnun fyrir næsta áfanga, en það er að koma upp steindum gluggum í hliðarstúkur kirkjunnar. Vonast hann til að þeir verði komnir upp fyrir 10 ára vígsluafmæli kirkjunnar á Ólafsmessu í sumar.

Gefin hafa verið út kort með myndum af stafngluggum kirkjunnar sem settir voru upp í júlí 2003. Kortin eru seld til styrktar uppsetningu glugganna í hliðarstúkur. Höfundur glugganna er Valgerður Bergsdóttir myndlistarmaður. Myndir af þeim má sjá á heimasíðu Reykholts, www.reykholt.is., en þeir taka á sig ýmsar myndir eftir birtuskilyrðum úti og inni.

Geir segir mikið um að vera í kirkjunni. Sl. laugardag fóru fram árlegir aðventutónleikar Reykholtskirkju, Tónlistarfélags Borgarfjarðar og Borgarfjarðarprófastsdæmis, þar sem Óperukór Hafnarfjarðar söng undir stjórn Elínar Óskar Óskarsdóttir.

Hinn 8. des nk. býður svo Sparisjóður Mýrasýslu til stórtónleika þar sem fram koma m.a. 8 kórar úr héraðinu. Sparisjóðurinn hefur um árabil stutt dyggilega við alla uppbyggingu og menningarstarf í Reykholti að sögn sr. Geirs. Hann kostaði m.a. prentun fyrrnefndra korta af kirkjugluggunum.

Messan var vel sótt enda veður hið besta, bjart og stillt.